N8 háskólarnir á Englandi og varðveisla réttinda

„N8“ stendur fyrir samstarf átta mikilvægra rannsóknaháskóla á Norður-Englandi, þ.e. háskólanna í Durham, Lancaster, Leeds, Liverpool, Manchester, Newcastle, Sheffield og York.

Þessir háskólar hafa gert með sér mikilvægt samkomulag um varðveislu höfundaréttinda sinna rannsakenda þegar rannsóknaafurðir þeirra eru birtar.

Háskólarnir hafa gefið út yfirlýsingu þar sem hægt er að kynna sér hvernig þeir vilja standa að varðveislu höfundaréttinda: How does rights retention work?

Nánar um yfirlýsinguna.

Til að gera langa sögu stutta, þá mælir N8 yfirlýsingin eindregið með því að vísindamenn flytji ekki sjálfkrafa hugverkaréttindi sín til útgefenda og noti yfirlýsinguna um varðveislu réttinda að staðaldri í samskiptum við útgefendur.

Réttindi höfunda við gerð útgáfusamninga

Þegar höfundur skrifar undir útgáfusamning við útgefanda vísindaefnis er hefðbundna leiðin sú að yfirleitt er klausa í samningnum þar sem höfundur afsalar sér að hluta eða öllu leyti höfundarrétti til útgefandans.  Þetta gerir það að verkum að höfundur hefur ekki leyfi til að birta grein sína þar sem hann vill t.d. í varðveislusafni eða nota á heimasvæði námskeiðs í sinni eigin kennslu.  SPARC (alþjóðleg samtök sem berjast fyrir opnari vísindum) gáfu nýlega út leiðbeiningar fyrir höfunda um réttindi sín og mikilvægi þess að afsala sér ekki höfundarrétti þegar skrifað er undir útgáfusamninga. Afskaplega mikilvægt tæki fyrir höfunda að hafa að leiðarljósi þegar gerðir eru útgáfusamningar og fyrir opnara aðgengi að vísindaefni.