Opinn aðgangur (e. Open Access) þýðir í raun tvennt. Efnið er opið á netinu án endurgjalds fyrir notandann og það eru skýrar aðgangs-/höfundarréttarheimildir sem fylgja með efninu (gjarnan CC leyfi). Seinna atriðið er afar mikilvægt þar sem það tryggir að efnið er opið á netinu um ókomna tíð samkvæmt leyfinu.
Efni sem er opið á netinu getur verið opið af ýmsum ástæðum. Það er opið án aðgangs/höfundarréttarheimilda, það er tímabundið opið eða búið er að borga fyrir að það sé opið á ákveðnum IP tölum (t.d. í gegnum Landsaðgang eða annarskonar rafrænar áskriftir). Enginn trygging er fyrir því að efnið verði opið í framtíðinni.
Hvað varðar Landsaðgang og rafrænar áskriftir væri nær að kalla það keyptan aðgang þar sem búið er að kaupa aðgang fyrir notendann að efninu og því er aðgangur ekki ókeypis. Landsaðgangur kostar t.a.m. íslenska ríkið í kringum 200 milljónir ár hvert (sjá nánar Landsaðgangur, ársskýrslur).
Opinn aðgangur er alltaf gjaldfrjáls fyrir notandann.