OA leiðbeiningar fyrir rannsakendur

 

Opinn aðgangur eykur sýnileika, miðlun, notkun og áhrif vísindastarfs þíns.

Birting í OA tímariti („gullna leiðin“)

      • Finndu viðeigandi OA tímarit.
      • Hægt er að nota Manuscript Matcher en sá vefur vísar á tímarit sem skráð eru í Web of Science.
      • Þegar þú skoðar mismunandi OA tímarit, skaltu hafa í huga að sum eru gæðatímarit, hafa háan áhrifastuðul og njóta virðingar, önnur hafa e.t.v. ekki náð fótfestu enn eða þykja síðri. Að þessu leyti gildir það sama um OA tímarit og hefðbundin tímarit.

Afnotaleyfi – höfundaréttur

      • Sum tímarit bjóða aðeins upp á ókeypis aðgang (e. gratis access) án opinna afnotaleyfa. Lestur greina er ókeypis en þær eru birtar með hefðbundnum höfundarétti (e. all rights reserved).

Birtingagjöld

Sum OA tímarit fara fram á birtingagjald („article processing charge“ = APC), önnur ekki.

Ef tímaritið sem þér líst best á fer fram á birtingagjald skaltu athuga hvort styrkveitandi þinn eða vinnuveitandi/stofnun er líkleg til að greiða það. Sjá stefnur og verklagsreglur íslenskra styrktaraðila:

Ef þú hefur áhyggjur af að þurfa að borga birtingagjöld úr eigin vasa, hafðu þá eftirfarandi í huga: Þó að innheimta birtingargjalda sé þekktasta viðskiptamódelið fyrir ritrýndar OA tímaritsgreinar, þá er það ekki það algengasta. Athugaðu að einungis um 30% ritrýndra OA tímarita krefjast birtingagjalda. Og þegar um slíkt módel er að ræða þarf að athuga verklagsreglur styrktaraðila sbr. hér ofar.

Þó að minnihluti ritrýndra OA-tímarita innheimti birtingagjöld, koma um helmingur birtra greina í ritrýndum OA-tímaritum úr tímaritunum sem byggja á gjaldtöku.

Ef þú vilt vita hvort tiltekin OA tímarit innheimti birtingargjöld án þess að þurfa að heimsækja vefsíðu hvers og eins þeirra, getur DOAJ – Directory of Open Access Journals gagnast þér.  Ef tímaritið er ekki skráð í DOAJ, skaltu íhuga vel hvort það sé rétta tímaritið fyrir þig.

Að finna rétta tímaritið

      • Ef þú finnur OA tímarit á þínu sviði sem þér líst vel á en hefur þó aldrei heyrt þess getið skaltu rannsaka málið. Lestu þér til um rányrkjutímarit hér á vef opins aðgangs og kynntu þér leiðbeiningarnar Hugsaðu, kannaðu, sendu inn (Think, check, submit).
      • Ekki gera fyrirfram ráð fyrir að tímarit sé veigalítið þó það sé lítt þekkt. Tímarit, sem lítið ber á, þarf ekki að vera lélegt, sér í lagi þegar það er nýlegt. Staðreyndin er sú að OA tímarit eru að meðaltali nýrri en hefðbundin tímarit. Ný tímarit, bæði OA og ekki OA, lenda í þeim vítahring að þurfa að birta framúrskarandi fræðigreinar til að skapa sér gott orðspor og þurfa um leið að hafa gott orðspor til að laða að framúrskarandi greinar. Ekki sniðganga tímaritið eingöngu vegna þess að það er rétt að hefja þessa erfiðu vegferð. Líttu til gæða greinanna, eins og kostur er. Jafnvel tímarit sem eru framúrskarandi frá byrjun þurfa tíma til að þróa orðspor sitt í réttu hlutfalli við gæði.
      • Þegar nýtt, traustvekjandi en lítt þekkt tímarit glímir við að auka sýnileika sinn getur þú lagt hönd á plóg með því að leggja fram nokkrar af úrvals greinum þínum.
      • Á sama hátt, ef stofnanir þurfa að ákveða hvaða OA tímarit á að styðja, gætu þær krafist aðildar að OASPA og/eða DOAJ skráningu og tilkynnt það á opinberri vefsíðu. Þetta hvetur útgefendur og tímarit í opnum aðgangi til að standa við staðlana sem OASPA og DOAJ setja.
      • Ef óþekkt OA tímarit óskar eftir efni frá þér eða býður þér að ganga til liðs við ritnefnd, geturðu svarað því til að þú munir íhuga það þegar útgefandinn gengur í OASPA og tímaritið er skráð í DOAJ. Þetta gæti verið rányrkjutímarit.
      • Þegar þú finnur viðeigandi OA tímarit, sendu þá handritið þitt inn á sama hátt og til hefðbundins tímarits.
      • Ef þú finnur ekki viðeigandi OA tímarit skaltu leita aftur þegar þú birtir næstu grein. Hlutirnir breytast hratt.

Alls ekki álykta sem svo að þú getir ekki enn birt grein þína í opnum aðgangi. Ef þú ferð ekki gullnu leiðina (í gegnum OA tímarit) geturðu birt greinina í hefðbundnu tímariti sem er ekki OA og gert ritrýnt handrit eða lokaútgáfu handrits aðgengilegt fyrir alla með grænu leiðinni með því að skrá það í varðveislusafnið Opin vísindi eða í IRIS rannsóknagáttina (þaðan er handritið flutt í Opin vísindi) IRIS sýnir rannsóknavirkni íslenskra háskóla og stofnana sem eiga aðild að kerfinu. Leiðbeiningar fyrir rannsakendur.

      • Gagnís er gagnaþjónusta félagsvísinda á Íslandi og hýsir rannsóknagögn í opnum aðgangi.
      • Ef fræðimaður fellur ekki undir ofangreind varðveislusöfn er ávallt hægt að birta í varðveislusafninu Zenodo sem var upphaflega stofnað fyrir rannsóknaafurðir studdar af ESB en er nú opið öllum.

Að birta í OA varðveislusafni („græna leiðin“)

      • Finndu viðeigandi OA varðveislusafn fyrir efnið þitt. Stefnur Háskóla Íslands og Vísindasjóðs Landspítala eru skýrar; það á að birta greinar sem notið hafa opinbers stuðnings í opnum aðgangi.  Ýmsir erlendir styrkveitendur gera einnig kröfu um birtingu í opnum aðgangi. Má þar nefna Norrænu ráðherranefndina, Research Councils UK, Wellcome Trust UK, Vetenskapsrådet Svíþjóð, Cancer Research UK og framkvæmdastjórn ESB: Horizon 2020.
      • Ef þú ert í vandræðum, skaltu spyrja upplýsingafræðing þinnar stofnunar eða hafa samband við upplýsingaþjónustu Landsbókasafns – Háskólabókasafns upplys@landsbokasafn.is.
      • Ef þín stofnun á ekki aðild að IRIS upplýsingakerfinu eða að Opnum vísindum (sjá hér ofar) skaltu íhuga alhliða varðveislusafn eins og Zenodo, sem er opið öllum. Það er mjög líklegt að styrktaraðilar þínir hafi skilyrt rannsóknarstyrk við birtingu fræðagreinar í varðveislusafni.

Varðveislusöfn eru góð lausn til framtíðar vegna þess að þau taka skref í átt að stafrænni varðveislu og tryggja réttar vefslóðir. Að auki eiga leitarvélar auðveldara með að finna efni þeirra og efnið varðveitist til framtíðar  hvaða breytingar sem kunna að verða á högum höfundar. OA-varðveislusöfn, eru einnig betri kostur en vefir sem reknir eru í hagnaðarskyni eins og t.d. ResearchGate. Rök fyrir því má m.a. lesa í grein eftir Sarah Bond (janúar 2017) og Erzsébet Tóth-Czifra (Júní 2020).

      • Byrjaðu á nýjasta efninu þínu og leggðu það inn í varðveislusafn um leið og því er lokið. Þegar þú mátt vera að, geturðu lagt inn eldra efni.

Þegar þú leggur inn nýtt efni, skaltu leggja það inn um leið og það er samþykkt til birtingar.. ATH. ekki leggja efnið inn í varðveislusafn áður en grein er samþykkt til birtingar. Það gæti leitt til þess að hún verði ekki samþykkt.

Gott er að hnykkja á einu mikilvægu atriði: Þegar þú setur nýtt efni í opinn aðgang (OA) getur það farið grænu eða gullnu leiðina (OA í gegnum varðveislusafn eða tímarit), eftir því sem við á.  En þegar þú vilt gera eldra efni aðgengilegt í opnum aðgangi, þá er græna leiðin alltaf fær og jafnvel gerð krafa um hana frá upphafi eins og fram hefur komið.

Oftast er löglegt að birta efnið þitt í opnum aðgangi í gegnum varðveislusafn jafnvel þó að þú hafir birt það í tímariti sem ekki er OA. Það eru tvær ástæður fyrir því.

      • Í fyrsta lagi gefa flestir hefðbundnir útgefendur sem ekki eru OA leyfi fyrir grænu leiðinni.
      • Í öðru lagi geta rannsóknarstofnanir tileinkað sér OA-stefnu um réttindi til að tryggja leyfi fyrir grænu leiðinni, jafnvel í tilvikum þar sem útgefendur gefa ekki „varanlegt leyfi“. Gagnlegt er að skoða upplýsingavefinn Jisc Open Policy Finder til að fá upplýsingar um útgáfustefnu hvers útgefanda um heim allan og skoða upplýsingar um stefnu og kröfur hvers styrktaraðila varðandi OA.

Þessar tvær staðreyndir hér að ofan eru meðal best geymdu leyndarmála OA. Einn útbreiddasti misskilningur um OA, er t.d. að allt OA sé „gull OA“; að birting í tímariti sem ekki er OA útiloki möguleika á OA; að viðeigandi réttindi tilheyri alltaf útgefendum og að útgefendur sem ekki eru OA geri ekkert til að aðlagast OA hreyfingunni né til að koma til móts við höfunda sem vilja opið aðgengi.

Mikilvægt atriði, sérstaklega fyrir rannsakendur í upphafi síns ferils:

      • Sum OA tímarit eru meðal virtustu tímarita á sínu sviði, hvernig sem að mælingum er staðið. Þetta safn OA tímarita vex með tímanum. En sumar valnefndir sem skipa í stöður eða ráða fólk þekkja ekki eða viðurkenna ekki ennþá OA tímarit sem kunna að vera meðal bestu tímarita á sviðinu. Ef það er staðan og þú þarft „viðurkenningu“ frá tilteknu hágæða tímariti vegna ferils þíns, skaltu ekki álykta sem svo að þú verðir að velja á milli OA og ferilsins. Í versta falli þarftu aðeins að sleppa gullnu leiðinni.

Hollráð fyrir framtíðina

      • Ef þú hefur leyfi til að leggja inn útgefna grein (published version / VoR= Version of Record) geturðu alltaf nálgast afrit af vefsíðu tímaritsins.
      • Ef þú hefur leyfi til að leggja inn „postprint“ greinarinnar (AAM-Author Accepted Manuscript) en hefur ekki þá útgáfu athugaðu þá hvort það leynist í útgáfustjórnunarkerfi  útgefanda þíns. 

Leiðbeiningarnar hér að ofan eru að hluta til byggðar á vefsíðunni „How to make your own work open access“ e. Peter Suber en síðan er jafnframt hluti af Harvard Open access Project (HOAP).