Upplýsingafræðingur

Hvernig getur opinn aðgangur gagnast þinni stofnun?

Eitt af aðalverkefnum háskóla og rannsóknastofnana er að afla nýrrar þekkingar. Þetta krefst mikillar fjárfestingar og henni fylgir jafnframt skylda þessara stofnana til að gera niðurstöður sínar aðgengilegar sem víðast.

Upplýsingafræðingar þurfa að vita af tilmælum UNESCO – Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna um opin vísindi sem samþykkt voru af 193 aðildarríkjum á 41. allsherjarþingi stofnunarinnar í nóvember 2021. Þau tilmæli marka tímamót. Helstu tilmæli og áherslur má lesa í fréttatilkynningu frá stofnuninni.

Von er á opinberri stefnu íslenskra stjórnvalda um opinn aðgang innan tíðar. Hefur þín stofnun markað sér stefnu um opinn aðgang?

Hvað getur þú sem upplýsingafræðingur lagt af mörkum?

    • Eflt vitund innan þinnar stofnunar um mikilvægi þess að deila niðurstöðum rannsókna.
    • Hvatt stofnunina þína til að móta stefnu þar sem vísindamenn hennar birta niðurstöður rannsókna sinna í opnum aðgangi og/eða í varðveislusafni.
    • Vakið athygli á að það er fleira en áhrifastuðull tímarita sem skiptir máli og þar koma til ný og opnari útgáfuform.
    • Vakið athygli stofnunar þinnar á reglum um höfundarétt. Hefur stofnunin sínar eigin reglur um höfundarétt? Stuðla þær að opnum aðgangi? Vertu meðvitaður um þessi mál og taktu þátt í þróun þeirra.

Hugtakið og stefnan um opinn aðgang er einungis hluti af mun víðtakari skilgreiningu um opin vísindi (e. open science).

Upplýsingafræðingar þurfa að búa yfir ákveðinni þekkingu, færni og hæfni ef þeir vilja láta til sín taka á þessu sviði. Fyrsta skrefið getur verið að kynna sér vel efni þessa upplýsingavefs um opinn aðgang.

Vinnuhópur um stafræna færni fyrir starfsfólk bókasafna og vísindamenn á vegum Liber (Samband evrópskra rannsóknarbókasafna) hefur tekið saman atriði sem varða hæfni og færni sem telja má sérlega mikilvæg varðandi opin vísindi. Þetta hefur verið sett upp í skýringarmynd:

Vertu með á nótunum og fylgstu með því helsta sem er að gerast varðandi opinn aðgang/opin vísindi.

Hjálparsíður og verkfæri varðandi opin vísindi/opinn aðgang