Opin vísindi (Open science)

Hvað eru opin vísindi?

Opin vísindi (Open Science/OS) er stefna sem miðar að því að gera rannsóknir, rannsóknargögn, aðferðir og niðurstöður aðgengilegar öllum, óháð staðsetningu eða aðild að stofnun. Markmiðið er að auka gagnsæi, samstarf og traust, og hraða þar með framþróun í vísindum með því að deila þekkingu og verkfærum eins snemma og víða og hægt er.

Opin vísindi má skilgreina sem iðkun vísinda með aukna áherslu á gagnsæi og samvinnu á þann hátt að fræðimenn geti unnið saman og hver og einn lagt sitt af mörkum þar sem rannsóknargögn, rannsóknarskýrslur og allt í ferli rannsóknar er opið með skilmálum sem gera kleift að endurnýta og endurdreifa upplýsingum, ásamt þeim aðferðum og gögnum sem rannsókn byggir á.

Opin vísindi eiga við um allar greinar vísinda. Þó að „opin vísindi“ (Open Science) sé algengasta hugtakið er einnig talað um „opna fræðimennsku“ (Open Scholarship) eða „opnar rannsóknir“ (Open Research).

Hver er munurinn á opnum aðgangi (Open Access/OA) og opnum vísindum (Open Science/OS)?

Opinn aðgangur (OA) er hugtakið sem notað er til að gera ritrýndar fræðigreinar og rannsóknarniðurstöður aðgengilegar á netinu fyrir alla. Opinn aðgangur á við hvers kyns rannsóknarniðurstöður s.s. tímaritsgreinar, bókakafla, bækur eða rannsóknargögn.

Opin vísindi (OS)  er mun víðtækara hugtak sem varðar framkvæmd og miðlun rannsókna á gagnsærri hátt með samvinnu að leiðarljósi. Þar sem rannsóknargögn og rannsóknarskýrslur á ýmsum stigum rannsóknarferlis eru gerðar aðgengilegar eins fljótt og auðið er. Þannig snúast opin vísindi um aðgang að efni og upplýsingum en geta einnig falið í sér hluti eins og samskiptanet fræðimanna,  borgaravísindaverkefni, opnar skrár, skýrslur  og minnisbækur frá rannsóknarstofum og opinn hugbúnað.

Opin vísindi eru því regnhlífarhugtak sem getur náð yfir fjölda verkefna.

Opin gögn

Við undirbúning fyrir birtingu rannsóknargagna, þarf að huga að ýmsum þáttum til að tryggja að gögn séu aðgengileg, endurnýtanleg og í samræmi við lög og siðareglur.

Evrópusambandið og opin vísindi

Evrópusambandið (ESB) hefur verið leiðandi afl í að efla og innleiða opin vísindi í álfunni. Það hefur mótað stefnur og reglur um opin vísindi sem hluta af rannsóknaráætlunum sínum og krefjast þess að allar rannsóknir styrktar af ESB verði opnar og aðgengilegar.

Að finna opin gögn í varðveislusöfnum

Opin gögn í varðveislusöfnum þurfa að falla að FAIR viðmiðum ef mögulegt á að vera að nýta þau. Þau viðmið eru að gögnin séu finnanleg, aðgengileg, gagnvirk og endurnýtanleg. Hér eru upplýsingar um hvar hægt er að finna opin gögn.

Að finna greinar í opnum aðgangi

Greinar sem birtar hafa verið í opnum aðgangi má finna víða. Þó er ekki alltaf augljóst hvar á að leita þeirra, sérstaklega þegar um grænan opinn aðgang er að ræða og leitað er að lokahandriti höfundar í varðveislusafni stofnunar eða háskóla. Hér er listi yfir leitarvélar og gagnagrunna sem birta greinar í opnum aðgangi.

Þjónusta Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns við opin vísindi

Rannsóknarþjónusta Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafn veitir rannsakendum ráðgjöf um birtingar í opnum aðgangi. Ráðgjöfin felur í sér:

  • Aðstoð við val á tímaritum og útgefendum og hvað ber að varast.
  • Umsjón með OJS útgáfu íslenskra tímarita.
  • Úthlutun DOI númera.

Ýmsar leiðbeiningar eins og um CC afnotaleyfi, hjálparvefi og verkfæri.

Vanti ykkur aðstoð má senda fyrirspurn á rannsokn@landsbokasafn.is