Græna leiðin (green open access) Handrit að grein er birt og gert aðgengilegt í varðveislusafni (t.d. IRIS – rannsóknaupplýsingakerfi fyrir Ísland), samhliða birtingu annars staðar. Höfundur sendir varðveislusafninu lokagerð handrits (Pre-print) eða ritrýnt lokahandrit (Post-print/Accepted manuscript) sem tilbúið er til birtingar. Greinin er síðan gefin út í áskriftartímariti en er jafnframt aðgengileg í opnum aðgangi í varðveislusafninu. Stundum er birtingartöf á efni sé þessi leið farinn, en það er mismunandi eftir útgefendum (sjá nánar um birtingatafir).
Upplýsingar um útgáfustefnu einstakra tímarita, birtingartöf og hvaða útgáfu greina má vista í varðveislusöfnum er hægt að nálgast hjá SherpaRomeo.
Gullna leiðin (gold Open access) Grein kemur út í opnum aðgangi í tímariti án endurgjalds eða hindrana fyrir notandann. Hins vegar getur kostnaður lagst á höfunda eða styrkveitanda, svokölluð þjónustugjöld vegna birtinga (Article processing charge – APC).
Demanta leiðin (diamond Open access) Opinn aðgangur með gullnu leiðinni nema hvað engin þjónustugjöld vegna birtinga leggjast á höfunda eða styrkveitanda. Höfundur heldur að jafnaði höfundarréttinum, í stað þess að framselja réttinn til útgefanda eins og í hefðbundinni útgáfu. Fjölmörg ritrýnd gæðatímarit eru í opnum aðgangi. Nálgast má upplýsingar um þau í Directory of Open Access Journals.
Blandaða gullna leiðin (Hybrid Gold Access) Grein kemur út í hefðbundnu áskriftartímariti en höfundur/styrkveitandi borgar útgefandanum þjónustugjald (APC) fyrir birtingu í opnum aðgangi (sjá nánar um þjónustugjöld vegna birtinga).
Brons leiðin Útgefendur hafa stundum greinar úr áskriftartímaritum opnar/ókeypis um óákveðinn tíma, gjarnan merktar Free access, en án nokkurra OA leyfa, þ.e. útgefandi getur án tafar ákveðið að loka aðgangi að grein þegar honum þóknast. Það er engin trygging fyrir því að grein sem er „opin“ í dag verði það áfram.