Sigurgeir Finnsson, verkefnastjóri á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum, 23. október 2021
Opinn aðgangur að rannsóknarniðurstöðum ætti að vera einfalt og auðsótt mál, en er það ekki. Eins og reifað hefur verið ansi vel í greinum fyrr í vikunni (20. okt., 21. okt. og 22.okt) er kerfið sem við búum við í dag hvað varðar birtingu og aðgang að fræðigreinum, afskaplega ósjálfbært og dýrt.
Enn er beðið eftir heildstæðri stefnu frá íslenskum stjórnvöldum um opinn aðgang eins og Rósa Bjarnadóttir talaði um á mánudaginn.
En af hverju er þetta svona flókið, af hverju birtir fræðafólk ekki greinar í opnum aðgangi? Jú þau tímarit sem eftirsóttast er að birta í eru yfirleitt lokuð áskriftartímarit, sem háskólabókasöfn kaupa aðgang að dýrum dómum. Það eru tímaritin sem fræðafólk fær flest stig fyrir í ársmatinu og upphefðin fyrir að fá grein sína birta í virtu tímariti er það sem máli skiptir. Það mætti ætla að ástæðan fyrir þessu hræðilega útgáfukerfi væri útgáfufyrirtækin en málið er að útgáfufyrirtækin eru einfaldlega að spila með þessu upphefðarkerfi og meðan að fólk birtir enn í þessum dýru tímaritum og háskólar kaupa enn áskriftir er enginn ástæða til að breyta kerfinu. Útgáfufyrirtækin hafa meira segja nýtt sér hugtakið opinn aðgangur til enn meiri gróða.
Þegar fyrst fór að bera á hugtakinu opinn aðgangur í upphafi aldarinnar var gjarnan talað um tvær leiðir til birtingar í opnum aðgangi, gullnu leiðina og grænu leiðina:
Gullna leiðin
Grein kemur út í opnum aðgangi í tímariti án endurgjalds eða hindrana fyrir þann sem les, gjarnan í tímariti sem allt er í opnum aðgangi. Til að byrja með var þetta einnig endurgjaldslaust fyrir þann sem birti.
Græna leiðin
Handrit að grein er birt og gert aðgengilegt í rafrænu varðveislusafni samhliða birtingu annars staðar. Höfundur sendir varðveislusafninu lokagerð handrits (Pre-print) eða ritrýnt lokahandrit (Post-print/Accepted manuscript) sem tilbúið er til birtingar. Greinin er síðan gefin út í áskriftartímariti en handritið er jafnframt aðgengilegt í opnum aðgangi í varðveislusafninu. Landsbókasafn Íslands ásamt öllum háskólum á Íslandi reka saman varðveislusafnið Opin vísindi, þar sem hægt er birta samkvæmt þessari leið.
Útgáfufyrirtækin eru vel með á nótunum og hafa búið til sína útgáfu af opnum aðgangi með sinni leið:
Hybrid leiðin
Útgáfufyrirtækin fóru að bjóða uppá að hægt væri að birta grein í opnum aðgangi í áskriftartímariti gegn gjaldi og til urðu hybrid tímarit. Höfundur borgar fyrir að grein sín birtist í opnum aðgangi þjónustugjöld vegna birtinga (Article processing charge) og geta þau numið allt að 500. þús. ISK fyrir einstaka grein. Ég endurtek hálf milljón fyrir eina grein. Þessi hybrid tímarit eru á sama tíma áskriftartímarit sem háskólabókasöfn borga aðgang að en jafnframt einnig að hluta í opnum aðgangi. Aukinn gróði fyrir útgáfufyrirtækin, aukin kostnaður fyrir fræðafólk, háskóla og háskólabókasöfn. Af einhverjum ástæðum hefur þetta orðið sú leið sem þekktust er í dag og ástæðan fyrir því að margt fræðafólk veigrar sér við að birta í opnum aðgangi. Útgáfufyrirtækin tóku fallega hugsjón um opinn aðgang og gerðu að gróðamaskínu.
Brons leiðin
Annað sem útgefendur gera einnig er að hafa greinar úr áskriftartímaritum opnar/ókeypis um óákveðinn tíma, gjarnan merktar Free access, en án nokkurra OA leyfa, þ.e. útgefandi getur án tafar ákveðið að loka aðgangi að grein þegar honum þóknast. Það er engin trygging fyrir því að grein sem er „opin“ í dag verði það áfram.
Demanta leiðin
Demanta leiðin er andsvar við Hybrid leiðinni, nokkurs konar gullna leiðin 2.0. Opinn aðgangur með gullnu leiðinni nema engin þjónustugjöld vegna birtinga leggjast á höfunda. Höfundur heldur að jafnaði höfundarréttinum, í stað þess að framselja réttinn til útgefanda eins og í hefðbundinni útgáfu. Tímarit sem þessi eru annað hvort rekin af háskólum eða vísindafélögum og er markmið þeirra einfaldlega að vera vettvangur fyrir birtingu vísindagreina án þess að þurfa að leita til stóru útgefendanna. Open Library of Humanities og Scoap3 eru dæmi um svona útgáfuform. Allt er gefið út í opnum aðgangi án kostnaðar fyrir höfunda né lesendur og rekið af frjálsum framlögum frá t.d. háskólabókasöfnum. Landsaðgangur styrkir t.a.m. Scoap3.
Það er ljóst í mínum huga að leiðin til að allt vísindaefni heimsins verði í opnum aðgangi er ekki hybrid leiðin heldur demanta leiðin og ég mæli eindregið frá því að fólk birti samkvæmt hybrid leið útgáfufyrirtækjanna. Demanta leiðin er ekki orðin fullfær ennþá en þangað til mæli ég með að fólk nýti sér grænu leiðina og birti handrit greina sinna í varðveislusafni allra háskóla á Íslandi Opnum vísindum.
Nánari upplýsingar um opinn aðgang má finna á openaccess.is.