Gulur, gylltur, grænn og brons: Opinn aðgangur og flókið litróf birtinga

Sigurgeir Finnsson, verkefnastjóri á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum, 23. október 2021

Opinn aðgangur að rann­sókn­ar­nið­ur­stöðum ætti að vera ein­falt og auð­sótt mál, en er það ekki. Eins og reifað hefur verið ansi vel í greinum fyrr í vik­unni (20. okt.21. okt. og 22.okt) er kerfið sem við búum við í dag hvað varðar birt­ingu og aðgang að fræði­grein­um, afskap­lega ósjálf­bært og dýrt.

Enn er beðið eftir heild­stæðri stefnu frá íslenskum stjórn­völdum um opinn aðgang eins og Rósa Bjarna­dóttir tal­aði um á mánu­dag­inn. 

En af hverju er þetta svona flók­ið, af hverju birtir fræða­fólk ekki greinar í opnum aðgangi? Jú þau tíma­rit sem eft­ir­sótt­ast er að birta í eru yfir­leitt lokuð áskrift­ar­tíma­rit, sem háskóla­bóka­söfn kaupa aðgang að dýrum dóm­um. Það eru tíma­ritin sem fræða­fólk fær flest stig fyrir í árs­mat­inu og upp­hefðin fyrir að fá grein sína birta í virtu tíma­riti er það sem máli skipt­ir. Það mætti ætla að ástæðan fyrir þessu hræði­lega útgáfu­kerfi væri útgáfu­fyr­ir­tækin en málið er að útgáfu­fyr­ir­tækin eru ein­fald­lega að spila með þessu upp­hefð­ar­kerfi og meðan að fólk birtir enn í þessum dýru tíma­ritum og háskólar kaupa enn áskriftir er eng­inn ástæða til að breyta kerf­inu. Útgáfu­fyr­ir­tækin hafa meira segja nýtt sér hug­takið opinn aðgangur til enn meiri gróða.

Þegar fyrst fór að bera á hug­tak­inu opinn aðgangur í upp­hafi ald­ar­innar var gjarnan talað um tvær leiðir til birt­ingar í opnum aðgangi, gullnu leið­ina og grænu leið­ina:

Gullna leið­in

Grein kemur út í opnum aðgangi í tíma­riti án end­ur­gjalds eða hind­r­ana fyrir þann sem les, gjarnan í tíma­riti sem allt er í opnum aðgangi. Til að byrja með var þetta einnig end­ur­gjalds­laust fyrir þann sem birt­i. 

Græna leið­in

Hand­rit að grein er birt og gert aðgengi­legt í raf­rænu varð­veislu­safni sam­hliða birt­ingu ann­ars stað­ar. Höf­undur sendir varð­veislu­safn­inu loka­gerð hand­rits (Pre-print) eða rit­rýnt loka­hand­rit (Post-prin­t/Accepted manuscript) sem til­búið er til birt­ing­ar. Greinin er síðan gefin út í áskrift­ar­tíma­riti en hand­ritið er jafn­framt aðgengi­legt í opnum aðgangi í varð­veislu­safn­inu. Lands­bóka­safn Íslands ásamt öllum háskólum á Íslandi reka saman varð­veislu­safnið Opin vís­indi, þar sem hægt er birta sam­kvæmt þess­ari leið.

Útgáfufyrirtækin eru vel með á nót­unum og hafa búið til sína útgáfu af opnum aðgangi með sinni leið:

Hybrid leið­in

Opinn gluggi e. Henri Matisse
Opinn gluggi e. Henri Matisse

Útgáfu­fyr­ir­tækin fóru að bjóða uppá að hægt væri að birta grein í opnum aðgangi í áskrift­ar­tíma­riti gegn gjaldi og til urðu hybrid tíma­rit. Höf­undur borgar fyrir að grein sín birt­ist í opnum aðgangi þjón­ustu­gjöld vegna birt­inga (Art­icle process­ing charge) og geta þau numið allt að 500. þús. ISK fyrir ein­staka grein. Ég end­ur­tek hálf milljón fyrir eina grein. Þessi hybrid tíma­rit eru á sama tíma áskrift­ar­tíma­rit sem háskóla­bóka­söfn borga aðgang að en jafn­framt einnig að hluta í opnum aðgangi. Auk­inn gróði fyrir útgáfu­fyr­ir­tæk­in, aukin kostn­aður fyrir fræða­fólk, háskóla og háskóla­bóka­söfn. Af ein­hverjum ástæðum hefur þetta orðið sú leið sem þekkt­ust er í dag og ástæðan fyrir því að margt fræða­fólk veigrar sér við að birta í opnum aðgangi. Útgáfu­fyr­ir­tækin tóku fal­lega hug­sjón um opinn aðgang og gerðu að gróðama­sk­ín­u. 

Brons leið­in

Annað sem útgef­endur gera einnig er að hafa greinar úr áskrift­ar­tíma­ritum opn­ar/ókeypis um óákveð­inn tíma, gjarnan merktar Free access, en án nokk­urra OA leyfa, þ.e. útgef­andi getur án tafar ákveðið að loka aðgangi að grein þegar honum þókn­ast. Það er engin trygg­ing fyrir því að grein sem er „op­in“ í dag verði það áfram.

Dem­anta leið­in

Dem­anta leiðin er and­svar við Hybrid leið­inni, nokk­urs konar gullna leiðin 2.0. Opinn aðgangur með gullnu leið­inni nema engin þjón­ustu­gjöld vegna birt­inga leggj­ast á höf­unda. Höf­undur heldur að jafn­aði höf­und­ar­rétt­in­um, í stað þess að fram­selja rétt­inn til útgef­anda eins og í hefð­bund­inni útgáfu. Tíma­rit sem þessi eru annað hvort rekin af háskólum eða vís­inda­fé­lögum og er mark­mið þeirra ein­fald­lega að vera vett­vangur fyrir birt­ingu vís­inda­greina án þess að þurfa að leita til stóru útgef­end­anna. Open Libr­ary of Human­ities og Scoap3 eru dæmi um svona útgáfu­form. Allt er gefið út í opnum aðgangi án kostn­aðar fyrir höf­unda né les­endur og rekið af frjálsum fram­lögum frá t.d. háskóla­bóka­söfn­um. Lands­að­gangur styrkir t.a.m. Scoap3

Það er ljóst í mínum huga að leiðin til að allt vís­inda­efni heims­ins verði í opnum aðgangi er ekki hybrid leiðin heldur dem­anta leiðin og ég mæli ein­dregið frá því að fólk birti sam­kvæmt hybrid leið útgáfu­fyr­ir­tækj­anna. Dem­anta leiðin er ekki orðin full­fær ennþá en þangað til mæli ég með að fólk nýti sér grænu leið­ina og birti hand­rit greina sinna í varð­veislu­safni allra háskóla á Íslandi Opnum vís­indum

Nán­ari upp­lýs­ingar um opinn aðgang má finna á  openaccess.is.