Open Science (OS) – Opin vísindi má skilgreina sem iðkun vísinda á þann hátt að fræðimenn geti unnið saman og lagt sitt af mörkum þar sem rannsóknargögn, rannsóknarskýrslur og allt í ferli rannsóknar er opið með skilmálum sem gera kleift að endurnýta og deila/dreifa rannsókn ásamt þeim aðferðum og gögnum sem hún byggir á.
Í hugtakinu „opin vísindi“ felst að vísindamenn framkvæma rannsóknir sínar á gagnsærri hátt en í hefðbundnum vísindum og í anda samvinnu. Opin vísindi eiga við um allar greinar vísinda. Þó að „Open Science“ sé algengasta hugtakið er einnig talað um „opna fræðimennsku“ (e. Open Scholarship) eða „opnar rannsóknir“ (e. Open Research) á sviði lista og hugvísinda.
Hver er munurinn á opnum aðgangi (e. open access OA) og opnum vísindum (e. open science OS)?
Opinn aðgangur (OA) er hugtakið sem notað er til að gera ritrýndar fræðigreinar og rannsóknarniðurstöður aðgengilegar í opnum varðveislusöfnum á netinu fyrir alla sem áhuga hafa á. Opinn aðgangur á við hvers kyns rannsóknarniðurstöður s.s. tímaritsgreinar, bókakafla, bækur eða rannsóknargögn.
Opin vísindi (OS) er mun víðtækara hugtak (regnhlífarhugtak) sem varðar framkvæmd og miðlun rannsókna á gagnsærri hátt með samvinnu að leiðarljósi. Rannsóknargögn og rannsóknarskýrslur á ýmsum stigum rannsóknarferlisins eru gerðar aðgengilegar eins fljótt og auðið er. Þannig snúast opin vísindi um aðgang að efni og upplýsingum en geta einnig falið í sér hluti eins og samskiptanet fræðimanna, borgaravísindaverkefni, opnar skrár, skýrslur og minnisbækur frá rannsóknarstofum og opinn hugbúnað.