Greinasafn fyrir merki: OpenAlex

Tölfræði – opinn aðgangur á Íslandi

Opnum aðgangi á Íslandi hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár þrátt fyrir að enn sé beðið eftir stefnu stjórnvalda um opinn aðgang. Má því einna helst þakka elju einstakra fræðimanna og tilmælum sjóða um að rannsóknarniðurstöður sem fjármagnaðar eru með almannafé séu í opnum aðgangi. OpenAlex er gagnagrunnur sem inniheldur mikið magn fræðiefnis. Þar er mögulegt að sækja tölfræðilegar upplýsingar um útgáfu landa, stofnana og fræðimanna.

Ef Ísland er skoðað í heildina inni í gagnagrunninum koma fram rúmlega 46 þúsund niðurstöður. Af þeim eru 49.1% í einhverskonar opnum aðgangi. Ef við skoðum hins vegar aðeins ár fyrir ár kemur í ljós að árið 2023 var um 72% allra greina sem tengjast Íslandi í opnum aðgangi.

Skjáskot úr OpenAlex, heildarfjöldi greina tengd Íslandi og hlutfall þeirra sem er í opnum aðgangi.
Skjáskot úr OpenAlex, heildarfjöldi greina tengd Íslandi og hlutfall þeirra sem er í opnum aðgangi.

Þessar niðurstöður eru sambærilegar ef litið er til háskólanna. Ef við skoðum tölfræði um Háskóla Íslands inni í OpenAlex fáum við um 27 þúsund niðurstöður. Af þessum greinum eru 49,3% í einhverskonar opnum aðgangi og HR hefur 47,5% greina í opnum aðgangi. Ef við skoðum hins vegar aðeins ár fyrir ár, kemur í ljós að árin 2023 og 2022 eru um 72% þeirra greina sem finnast í OpenAlex í opnum aðgangi hjá HÍ og 63,5% hjá HR.

Skjáskot úr OpenAlex, heildarfjöldi greina tengd Háskóla Íslands og hlutfall þeirra sem er í opnum aðgangi.
Skjáskot úr OpenAlex, heildarfjöldi greina tengd Háskóla Íslands og hlutfall þeirra sem er í opnum aðgangi.

Ef sambærileg leit er gerð innan IRIS rannsóknargáttarinnar kemur í ljós að af þeim 56.456 rannsóknarafurðum sem þar eru skráðar eru 16.420 í opnum aðgangi, eða rétt um 30%. Ef við skoðum þá aðeins árið 2023 kemur í ljós að af þeim 2.717 greinum sem gefnar voru út árið 2023 og hafa verið skráðar í kerfið eru 1.434 skráðar í opnum aðgangi, eða um 52%. Þó mögulegt sé að þessar tölur séu að einhverju leyti óáreiðanlegar, má þó sjá greinilega þróun í átt að opnum aðgangi.