Tímamótasamningur

 

Projekt Deal er samstarfsverkefni ýmissa háskóla og vísindastofnanna í Þýskalandi og gengur út á að segja upp stórum tímaritaáskriftum við stóra útgefendur eins og Wiley, Elsevier o.fl. og og gera í staðinn svokallaða „Publish & Read“ samninga.

Þann 15. janúar síðastliðinn var undirritaður tímamótasamningur milli Projekt Deal og útgáfurisans Wiley. Samningurinn gengur út frá „Publish & Read“ módelinu og er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum. Samningurinn snýst í stuttu máli um að aðilar að Deal munu geta gefið út vísindagreinar í tímaritum Wiley í opnum aðgangi án aukakostnaðar og einnig er tryggður aðgangur að rafrænum tímaritum útgefandans frá árinu 1997.


 

Alþjóðleg vika opins aðgangs 22. – 28. október

 

Alþjóðleg vika opins aðgangs er nú haldin í 11. skipti. Þema vikunnar í ár er „Designing Equitable Foundations for Open Knowledge“ sem á íslensku mætti útleggja sem mótun sanngjarnra grunnstoða fyrir opin vísindi. Íslensk háskólabókasöfn taka þátt í vikunni í ár með ýmsum hætti, má þar helst nefna sýningu á heimildarmyndinni Paywall: the business of scholarship en einnig með því að vekja athygli á opnum aðgangi á samfélagsmiðlum og innan veggja háskólanna. Fyrir þá sem vilja fræðast meira um opinn aðgang þá má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar á openaccess.is og einnig má benda á ýmiskonar fræðslu á heimasíðu OpenAire fyrir þá sem vilja kafa dýpra.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn mun sýna Paywall: the business of scholarship miðvikudaginn 24. október í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu kl. 10:30-12:00.

http://openaccess.is/

http://openaccessweek.org/

https://www.openaire.eu/open-access-week-2018

cOAlition S samkomulagið

Þann 4. september var kynnt nýtt OA samkomulag, cOAlition S, sem opinberir rannsóknarsjóðir ellefu Evrópusambandsríkja eru aðilar að.  Í stuttu máli er markmið samkomulagsins að allt  vísindastarf sem styrkt er af rannsóknarsjóðunum verði skylt að birta í opnum aðgangi tafarlaust frá og með 1. Janúar 2020 án nokkurra gjald- eða aðgangshindrana.  Þetta þýðir að eins og staðan er í dag væri ekki hægt að birta afrakstur þessa vísindastarfs í  um 85% vísindatímarita þ.á.m. Nature og Science.  Þar sem þetta eru mjög stórir aðilar í Bretlandi, Frakklandi og fleiri löndum mun þetta án efa hafa gríðarleg áhrif á útgáfu vísindatímarita og gæti hreinlega gert út af við tímaritaáskriftarmódelið eins og það er núna.

Nánar má lesa um þetta í frétt frá Nature.

Gert er ráð fyrir að fleiri aðilar geti skrifað undir samkomulag cOAlition S í framtíðinni.