Hér fyrir neðan má sjá erindi sem Sigurgeir Finnsson upplýsingafræðingur flutti á afmælismálþingi Reykjavíkurakademíunnar, föstudaginn 4. nóvember 2022. Erindið bar yfirskriftina „Opinn aðgangur? Útgáfa, kostnaður og aðgangur að vísindaefni“. Þar kemur Sigurgeir inn á hvernig opinn aðgangur snýr að sjálfstæðum rannsakendum.
COVID rannsóknir opnar – en hversu lengi?
Sumir halda því fram að vísindagreinar sem gerðar voru aðgengilegar ókeypis meðan á heimsfaraldrinum stóð séu að einhverju leyti að hverfa á bak við gjaldveggi (e. paywalls). Svo virðist þó ekki vera – ennþá…
Í upphafi COVID-19 heimsfaraldursins brugðust útgefendur vísindatímarita skjótt við og gerðu rannsóknir sem tengdust faraldrinum aðgengilegar ókeypis – tímabundið að minnsta kosti. Rannsóknir í tengslum við sjúkdóminn eða vírusinn SARS-CoV-2 yrðu ókeypis „að minnsta kosti meðan faraldurinn varir,“ eins og fram kom í yfirlýsingu útgefenda áskriftatímarita 31. janúar 2020, einungis degi eftir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að nýi kórónaveirufaraldurinn væri bráð ógn við lýðheilsuna sem varðaði þjóðir heims.
Nú er heimsfaraldurinn á þriðja ári og fregnir berast um að nú líði að lokum ókeypis aðgangs að COVID-19 rannsóknum. Ef svo er, bendir það til þess að útgefendur hafi ákveðið að COVID-19 neyðarástandinu sé lokið áður en heilbrigðisyfirvöld heimsins hafa gert það. En er svo í raun?
Richard Van Noorden, ritstjóri hjá tímaritinu Nature kynnti sér málið. (Þess má geta að fréttateymi Nature er ritstjórnarlega óháð Springer Nature, útgefanda þess.) Lesa áfram „COVID rannsóknir opnar – en hversu lengi?“
Í tilefni alþjóðlegrar viku opins aðgangs 24. – 28. október 2022
Nú stendur yfir alþjóðleg vika opins aðgangs, 24. – 28. október.
Að þessu sinni er þema vikunnar „loftslagsréttlæti“ (e. Climate Justice). Landvernd skýrir hugtakið á þessa leið:
Hugtakið loftslagsréttlæti gefur til kynna að loftslagsmál eru ekki bara umhverfismál, heldur verður baráttan við loftslagshamfarir alltaf að taka mið af mannréttindum, félagslegu réttlæti og jafnrétti kynja.
Opinn aðgangur varðar okkur öll – hagsmuni okkar allra. Krafan um að allir hafi aðgang að niðurstöðum rannsókna sem studdar eru af opinberu fé verður sífellt háværari. Ekki eingöngu á tímum COVID, ekki eingöngu „spari“ heldur alltaf.
Sjá grein í tilefni viku opins aðgangs: Hvíta húsið, UNESCO og endurbætt rannsóknamat.
Fjölmargar bækur, tímarit og greinar eru nú í opnum aðgangi
-
- Opnar rafbækur um loftslagsmál:
Heimsækið Directory of Open Access Books og skoðið „Subject“. Þar eru 13 efnisflokkar sem byrja á „Environment“ þar af Environmental science, engineering & technology [206 bækur] og Climate change [116 bækur]. - Opin tímarit um loftslagsmál:
Á síðunni Directory of Open Access Journals má finna 53 tímarit undir efninu (e. Subject) „Climate“ í flokkinum „Science“ – á ensku. Skoða lista. - Rannsóknaupplýsingakerfið IRIS
Í rannsóknaupplýsingakerfinu IRIS eru greinar eftir rannsakendur á Íslandi um loftslagsbreytingar (e. Climate change). Margar þeirra eru í opnum aðgangi.
- Opnar rafbækur um loftslagsmál:
Að þessu sögðu er vert að hvetja yngri sem eldri rannsakendur, doktorsnema, upplýsingafræðinga og almenning til að kynna sér efni þessa vefs, opinnadgangur.is. Rannsakendur ættu sérstaklega að huga að eftirfarandi:
-
- Hvernig geturðu birt rannsóknaniðurstöður þínar í opnum aðgangi?
- Ertu að gæta höfundaréttar þíns?
- Hvernig forðastu rányrkjutímarit?
- Þekkirðu stefnu þinnar stofnunar um opinn aðgang?
- Þekkirðu stefnu RANNÍS um opinn aðgang?
- Þekkirðu stefnu stjórnvalda um opinn aðgang? (Stefnan er ekki komin. Hvað tefur?).
Loks er tilvalið að skyggnast bak við tjöldin og skoða heimildamyndina Paywall: The Business of Scholarship. Myndin leggur áherslu á þörfina fyrir opinn aðgang að rannsóknum og vísindum. Í henni er dregið í efa réttmæti þeirra mörgu milljarða dollara á ári sem renna til akademískra útgefenda í hagnaðarskyni.