Útgáfa í opnum aðgangi: mismunandi viðskiptamódel

Myndbandið hér fyrir neðan kynnir mismunandi viðskiptamódel fyrir útgáfu í opnum aðgangi sem falla ekki undir það sem kallast „höfundurinn borgar módel“ (e. author-pays-model).

Myndbandið var framleitt af Leibniz Information Center for Science and Technology (TIB) árið 2023 og er hluti af  BMBF-styrktu verkefninu open-access.network í Þýskalandi. (BMBF = Bundesministerium für Bildung und Forschung).

Vídeóið var unnið af Helene Strauß, Jonas Hauss og Jesko Rücknagel í samvinnu við Florian Carlo Strauß.

Burt með birtingagjöldin

Styrkveitendur rannsókna sem eru aðilar að áætluninni Plan S hafa beðið  rannsóknageirann um endurhugsa núverandi módel varðandi opinn aðgang og birtingagjöld (e. APC – article processing charges) sem þeir segja að virki ekki.

Styrkveitendur krefjast tafarlauss opins aðgangs að rannsóknaafurðum sem þeir hafa stutt. Hópurinn tilkynnti þann 27. júní 2023 að stofnaður yrði vinnuhópur til að skoða önnur viðskiptamódel en ríkjandi APC gjöld.

APC eru gjöld fyrir hverja grein sem greidd eru til útgefenda fyrir opinn aðgang. Gjöldin eru venjulega greidd með fjármunum frá styrkveitendum eða rannsóknastofnun þannig að vísindamenn þurfa ekki beinlínis að hafa áhyggjur af kostnaðinum.

En það eru áhyggjur af vaxandi kostnaði meðal styrkveitenda, stofnana og þeirra sem móta stefnu um opinn aðgang. Í maí 2023 samþykkti Evrópuráðið þá afstöðu  að „aukinn kostnaður við … fræðilega útgáfu valdi ójöfnuði og sé að verða ósjálfbær“.

Nánar um þetta í greininni Alternatives to „dysfunctional“ open-access model sought.

Lokayfirlýsing 16. Berlínarráðstefnunnar 2023

Sextánda Berlínarráðstefnan um opinn aðgang var haldin í Berlín 6. – 7. júní 2023.

Þátttakendur komu frá 38 löndum og sex heimsálfum. Þar á meðal voru vísinda- og fræðimenn, ráðherrar menntamála og rannsókna, styrkveitendur, leiðtogar háskóla og rannsóknastofnana og fulltrúar bókasafna og bókasafnasamlaga.

Í lokayfirlýsingu ráðstefnunnar kom eftirfarandi fram:

      • Umskiptin yfir í opinn aðgang á heimsvísu verða að gerast hraðar.
      • Ójöfnuður er ósamrýmanlegur fræðilegri útgáfu.
      • Akademísk sjálfstjórn er nauðsynleg í fræðilegri útgáfu.
      • Virkja þarf að fullu val höfunda og réttindi þeirra.

Ennfremur segir í yfirlýsingunni:
Útgefendur geta endurheimt traust okkar á skuldbindingu þeirra varðandi heilindi í fræðilegum samskiptum með því að vinna með öllum meðlimum alþjóðlegs rannsóknarsamfélags til að koma á fullkomnum og tafarlausum opnum aðgangi í samræmi við atriðin hér að ofan.