Finnland og samningar um aðgang að rafrænum tímaritum

Í greininni Costs of scientific journals have reached unsustainable level – The future of subscriptions in jeopardy  má lesa að finnskir háskólar og rannsóknarstofnanir standa frammi fyrir miklum áskorunum þar sem útgefendur halda áfram að hækka áskriftir fyrir vísindatímarit sín og útgáfu í opnum aðgangi. Kostnaðurinn er orðinn óheyrilegur og ekki í takt við ávinninginn.

FinELib samlagið hefur samið við útgefendur um aðgang sem nær bæði yfir lestur vísindatímarita og útgáfu greina í opnum aðgangi en heildarkostnaðurinn við þessa samninga er orðinn ósjálfbær. Útgefendur hafa í raun hindrað umskipti yfir í opna útgáfu og notað opinn aðgang sem leið til þess að auka enn hagnað sinn.

FinElib sækist nú eftir verulegum afslætti í næstu samningum, en afslættirnir verða að vera raunverulegir og nást ekki með því að skerða innihald samninganna. Ef samningar nást ekki getur verið að sumum þeirra verði ekki haldið áfram.

Útgefendur sem þátt taka í viðræðunum eru American Chemical Society (ACS), Elsevier, Emerald, IEEE, Oxford University Press (OUP), Royal Society of Chemistry (RSC) og Springer.

Þetta vandamál einskorðast auðvitað ekki bara við Finnland, heldur standa önnur lönd frammi fyrir sama vanda.

Lesa nánar í greininni Costs of scientific journals have reached unsustainable level – The future of subscriptions in jeopardy.

Rányrkjutímarit og grunlausir rannsakendur

Ný grein í tímaritinu Nature ber yfirskriftina „Predatory journals entrap unsuspecting scientists“ eftir  Chérifa Boukacem-Zeghmouri.

Þetta er holl lesning fyrir rannsakendur sem eru að fóta sig í útgáfuumhverfinu sem fræðimenn búa við.

Rányrkjutímarit eru orðin útbreidd innan vísindasamfélagsins. Þessi tímarit innheimta gjöld af höfundum,  birta óritrýndar greinar, sóa tíma og peningum vísindamanna og grafa undan trausti almennings á vísindum.

Nýleg könnun leiddi í ljós að margir vísindamenn frá lág- og meðaltekjulöndum sendu vísvitandi greinar til rányrkjutímarita og sáu í því tækifæri til að öðlast framgang í  samkeppninni innan akademíunnar.

Skortur á fræðslu um útgáfuviðmið  og skortur á stuðningi rannsóknarstofnana stuðlar að því að rannsakendur verði fórnarlömb slíkra útgefenda. Þeir nýta sér þekkingarskort vísindamanna á fræðilegri útgáfu og bjóða hraðvirkt og einfalt útgáfuferli.

Hér þarf að gera betur.

Skoða greinina „Predatory journals entrap unsuspecting scientists“ eftir  Chérifa Boukacem-Zeghmouri.

Mynd: Úr greininni „Predatory journals: What they are and how to avoid them“.