Af hverju OA

 

Kostir við birtingar í opnum aðgangi

    • Aukinn sýnileiki – fleiri hafa aðgang að og geta lesið afrakstur vísindastarfs sem birtist í opnum aðgangi.
    • Hraðari framþróun – aðgangur er greiðari og hraðar því fyrirhuguðum vísindarannsóknum, vísindamenn fá hraðar aðgang að efni en með áskriftarleiðinni.
    • Tilvitnunum fjölgar – fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á fjölda tilvitnana og flest bendir til þess að vitnað sé meira í greinar sem birtast í opnum aðgangi (sjá Open Access Citation Advantage).
    • Aðgengi almennings – a) Vísindarannsóknir eru fjármagnaðar af almanna fé og því á almenningur rétt á því að hafa aðgang að niðurstöðum þeirra.  Almenningur á ekki að þurfa að borga (í gegnum tímaritaáskriftir bókasafna) til þess að fá aðgang að niðurstöðum rannsókna sem þeir eru í raun búnir að fjármagna með skattfé sínu. b) Almenningur hefur aðgang að mikilvægum upplýsingum fyrr (t.d. mikilvægum uppgötvunum í læknavísindum).
    • Uppfyllir skilyrði rannsóknasjóða – Fleiri og fleiri rannsóknasjóðir gera kröfu um birtingu í opnum aðgangi.
    • Skattgreiðendur – Skattgreiðendur njóta afraksturs vísindavinnu sem þeir hafa nú þegar styrkt í gegnum opinbera sjóði.
    • Þróunarlönd – Háskólar í þriðja heiminum eru fátækir og hafa ekki efni á rándýrum tímaritáskriftum. Opinn aðgangur að vísindarannsóknum hjálpar því framþróun menntunar í þróunarlöndum sem er gæfuríkt fyrir heiminn allan.

 

Ókostir við birtingar í opnum aðgangi

Fræðimenn upplifa stundum ákveðna þröskulda sem tengjast breytingunni yfir í útgáfulíkanið sem miðast við opinn aðgang. Til lengri tíma litið, mun breytingin skila fræðimönnunum sjálfum ávinningi. Þessir þröskuldar eru helstir:

    • Á sumum sviðum vísinda svo sem í heilbrigðisvísindum eru vísindamenn metnir eftir getu þeirra til að birta niðurstöður rannsókna í tímaritum með háan áhrifastuðul. Það tekur ákveðinn tíma áður en ný tímarit, bæði hefðbundin og í opnum aðgangi, geta unnið sér inn áhrifastuðul. Aðeins þá eru þau áhugaverð fyrir vísindamenn. Finna þarf aðra leið til að umbuna og meta vísindamenn.
    • Fjöldi hágæða tímarita í opnum aðgangi er afar breytilegur eftir fræðasviðum. Sum fræðasvið hafa einungis fá slík tímarit ennþá.
    • Aukin umsýsla getur fylgt  útgáfu í tímariti í opnum aðgangi.
    • Rannsóknarstofnanir hafa enn ekki gert nægar ráðstafanir til að greiða birtingagjöld (e. Article Processing Charge – APC) fyrir styrkþega sína og getur það þýtt aukinn kostnað fyrir rannsakendur. Sjálfsagt er að spyrja um slíkt hjá háskólum og öðrum rannsóknastofnunum.
    • Rannsakendur þurfa að varast „hákarlatímarit“ af vafasömum gæðum sem einatt senda ruslpóst.
    • Því kann að fylgja auka umstang fyrir rannsakendur að halda til haga gögnum til að setja í varðveislusöfn til að tryggja opinn aðgang.

Útgáfa í opnum aðgangi þýðir ekki …

    • að þú sem höfundur gefir frá þér höfundaréttinn
    • að greinin/gögnin þín verði birt án ritrýni
    • að greinin/gögnin þín verði ekki skráð í fræðileg gagnasöfn
    • að útgáfan þín muni ekki hafa áhrif

Opinn aðgangur er afskaplega mikilvægur fyrir marga markhópa: Rannsakendur sjálfa, fyrirlesara, nemendur, stjórnendur og útgefendur.