Evrópusambandið (ESB) hefur verið leiðandi afl í að efla og innleiða opin vísindi í álfunni. Það hefur sambandið gert með því að móta stefnur og reglur um opin vísindi sem hluta af rannsóknaráætlunum sínum og gera þær kröfur að allar rannsóknir styrktar af ESB verði opnar og aðgengilegar. ESB hefur fjármagnað og þróað lykilinnviði eins og EOSC og OpenAIRE sem auðvelda aðgengi, varðveislu og miðlun rannsóknargagna og afurða. ESB styður notkun FAIR viðmiða og gerir þær kröfur að rannsakendur skili gagnaáætlunum (DMP) og birti gögn og greinar í opnum aðgangi.
OpenAIRE (Open Access Infrastructure for Research in Europe) var upphaflega heiti samstarfsverkefnis sem Evrópusambandið setti af stað árið 2011 til að styðja við opinn aðgang að rannsóknargögnum, vísindagreinum og hugbúnaði. Verkefnið reyndist evrópsku rannsóknarumhverfi mikilvægt og árið 2018 var ákveðið að tryggja varanleika þess og formfesta í stofnuninni OpenAIRE A.M.K.E. sem um 50 evrópskir háskólar, rannsóknastofnanir og aðrar stofnanir eiga aðild að.
- Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn var formlegur aðili að OpenAIRE A.M.K.E., um tíma auk þess sem Heilbrigðisvísindabókasafn Landspítala hafði sk. félagsaðild (e. associate membership). Þáttöku hefur þó verið hætt í bili. Framtíðarsýn OpenAIRE byggir á þeirri hugsjón að opinn aðgangur að staðfestri vísindalegri þekkingu sé öllum til hagsbóta, auki nýsköpun og geti breytt samfélögum til góðs.
- OpenAIRE á fulltrúa í mörgum löndum Evrópu og víðar sem kynna starfsemi þess innan sinna landa og stofnana. Stefnan er sú að ná til sem flestra til að vinna að stefnumörkun um opin vísindi og aðstoða rannsakendur við að tileinka sér vinnubrögð opinna vísinda og vista rannsóknarafurðir styrktar af rannsóknarsjóðum Evrópusambandsins í opnum aðgangi eins og styrkþegum ber að gera.
- Segja má að verkefni OpenAIRE skiptist í tvo hluta. Annars vegar að ná til sem flestra með góðu úrvali af fræðslu og stuðningi, s.s. vinnustofur, vefnámskeið og fræðsluefni og hins vegar að koma upp traustum, tæknilegum innviðum sem auðvelda leið að fræðilegu efni í opnum aðgangi og þjónusta rannsakendur og rannsóknarstofnanir á ýmsa vegu. Leitarvél þeirra, Explore, leitar í viðurkenndum varðveislu- og gagnasöfnum sem uppfylla gæðastaðla OpenAIRE og veitir nú aðgang að milljónum gagna í opnum aðgangi. Zenodo er varðveislusafn þróað af CERN (Conseil Européen pour la Recherche Nucléaire) og vistað þar.
- Hér er yfirlit yfir ýmsa þjónustu og tæknilegar lausnir í boði OpenAIRE.
- OpenAIRE Observatory er verkefni á vegum OpenAIRE en þar má fylgjast með stöðu opins aðgangs og opinna gagna í Evrópu og einnig í hverju landi fyrir sig.
- OpenAIRE er aðili að EOSC (The European Open Science Cloud) og vinnur með þeim að ýmsum verkefnum.
- EOSC (The European Open Scienc Cloud) var sett á laggirnar að frumkvæði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 2015 en varð að formlegum samtökum árið 2020. Stefna þess er að styðja við stefnu ESB um opin vísindi og þróa tæknilega innviði sem auðvelda aðgang og endurnýtingu gagna. Tilgangurinn er að samþætta og samhæfa fjölmargar gagnaveitur og gagnaþjónustur sem veittar eru af ýmsum aðilum í gegnum ákveðið kerfi (federated system of systems) til að samtengja rannsóknarinniviði, fremur en að bjóða upp á eina miðlæga gagnageymslu. EOSC-Nordic var verkefni sem stóð frá 2019-2022 með það hlutverk að bæta samhæfingu og auðvelda aðgang að norrænum og baltneskum rannsóknarinnviðum.
- European Open Science Cloud – EU Node er miðlæg evrópsk þjónustu- og leitargátt (Resource hub) fyrir rannsakendur um þjónustu EOSC, rannsóknargögn og rannsóknarafurðir, hugbúnað og fleira. EU Node tengir saman rannsóknargögn frá fjölmörgum evrópskum rannsóknarnetum og gagnaveitum og gerir vísindasamfélaginu kleift að nálgast, deila og nýta rannsóknargögn á öruggan og samhæfðan hátt. Á vefnum er að finna kennsluefni og fræðslu um hvernig best megi nýta sér efni hennar. EU Node er fyrsti hlekkurinn í stærra, samtengdu EOSC-kerfi (EOSC Federation).
- EOSC og OpenAIRE eru nátengd og eiga í samstarfi við að efla opin vísindi og aðgang að evrópskum rannsóknargögnum.
OPERAS (Open Scholarly Communication in the European Research Area for Social Sciences and Humanities)
OPERAS (Open Scholarly Communication in the European Research Area for Social Sciences and Humanities) er verkefni sem er ætlað að styrkja rannsóknarinnviði sem styðja við þórun á opinni og fræðilegri miðlun á sviði félags- og hugvísinda. OPERAS vinnur að því að samræma og efla þjónustu, tækni og staðla þannig að rannsóknir og útgáfa á þessum sviðum verði aðgengilegri, sjálfbærari og í samræmi við stefnu um opin vísindi.
Markmiðið með OPERAS verkefninu er að tengja saman fjölmarga rannsóknaraðila í Evríopu sem annars starfa hver í sínu horni, og skapa heildstæðan vettvang sem gerir fræðasamfélaginu kleift að miðla þekkingu sinni á skilvirkari hátt – bæði innan vísindaheimsins og út til samfélagsins.
Fjöldi stofnana og samstarfsaðila koma að uppbyggingu OPERAS í Evrópu