Samið hefur verið um opinn aðgang við Karger útgáfuna

Samlag um landsaðgang að rafrænum áskriftum hefur samið við Karger útgáfuna um opinn aðgang að vísindatímaritum fyrir alla landsmenn

Samningurinn tryggir landsaðgang að öllum rafrænum tímaritum Karger frá og með 1998. Vísindamenn á Íslandi geta birt vísindagreinar í tímaritum Karger í opnum aðgangi án þess að greiða birtingargjöld og er fjöldi greina til birtingar ótakmarkaður.

Fréttatilkynning

Leiðbeiningar um innsendingu greina til birtingar hjá Karger (á ensku)

Í samningnum felst einnig aðgangur fyrir alla landsmenn að KargerLEARN, sem er kennsluvefur með 15 netnámskeiðum sem fjalla um hagnýtt atriði tengdu ritunarferli vísinda- og fræðigreina og birtingum í vísindatímaritum. Námskeiðin eru alhliða og nýtast einstaklingum á öllum fræðasviðum.

Leiðbeiningar á ensku fyrir KargerLEARN.

Vika opins aðgangs 2020 – Greinar

Vika opins aðgangs var haldin í 13. skipti í síðustu viku. Háskólabókasöfn á Íslandi ákváðu að vinna saman þetta árið og skrifaðar voru fimm ólíkar greinar um opinn aðgang sem birtust allar á Kjarnanum dagana 19-23. október:

Rósa Bjarnadóttir, forstöðumaður bókasafns og upplýsingaþjónustu Listaháskóla Íslands reið á vaðið og skrifaði um skort á stefnu frá stjórnvöldum um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum:

#HvarerOAstefnan?

Guðrún Þórðardóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur, Landbúnaðarháskóla Íslands, skrifaði um kostnaðinn við að birta og lesa vísindagreinar:

Hvers vegna kostar 5.000 krónur að lesa vísindagrein?

Þann 21. október skrifaði Þórný Hlynsdóttir, forstöðumaður bókasafns Háskólans á Bifröst, um aðgerðasinnana Aaron Schwarz og Alexöndru Elbakyan og baráttu þeirra fyrir opnu aðgengi að vísindaefni:

Píratadrottningin og hakkarinn

Sara Stef. Hildardóttir, forstöðukona Bókasafns Háskólans í Reykjavík fjallaði um áhrif Covid á aðgengi að upplýsingum í samhengi við svokallað hringrásarhagkerfi:

Covid, opinn aðgangur og ekki-hringrásarhagkerfi

Að lokum fjallaði Sigurgeir Finnsson, verkefnastjóri á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, um ólíkar leiðir til birtingar í opnum aðgangi og kosti þess að birta samkvæmt grænu leiðinni:

Gulur, gylltur, grænn og brons: Opinn aðgangur og flókið litróf birtinga

Samstarf háskólabókasafna á Íslandi hefur ávallt verið gott og samstarfið um baráttuna fyrir opnum aðgangi er þar engin undantekning. Við munum halda áfram að vinna saman og vekja athygli á þessu brýna málefni..

Vika opins aðgangs 2020 (Open Access Week) 19.-25. október

http://openaccessweek.org/

Alþjóðleg vika opins aðgangs verður haldin nú í október í 13. skiptið. Þema vikunnar í ár er: „Open with Purpose: Taking Action to Build Structural Equity and Inclusion“ eða „Opnun með tilgangi: Grípum til aðgerða og byggjum upp jafnræði og sanngirni.

Eins og staðan er í heiminum í dag er aðgangur að þekkingu að miklu leyti háður fjármagni og ríkari þjóðir hafa betri aðgang en þær sem fátækari eru. Þemað í ár dregur athyglina að þessu.

Á þessum fordæmalausu tímum kemur bersýnilega í ljós hve nauðsynlegt er að hafa óheftan aðgang að þekkingu til að leysa þau gríðarstóru vandmál sem við heiminum blasa. Mörg útgáfufyrirtæki hafa opnað tímabundið fyrir aðgengi að rannsóknaniðurstöðum sem birtast í tímaritum á þeirra vegum. En þegar búið verður að finna bóluefni gegn veirunni miklu á að skella í lás aftur. Opinn aðgangur er öflugt tæki til að byggja upp sanngjarnara kerfi til að miðla þekkingu. Endurhugsun á rannsóknarstarfi þar sem allt er opið og aðgengilegt er tækifæri til að reisa grunn sem er í grundvallaratriðum sanngjarnari en nú er.

Háskólabókasöfn á Íslandi hafa tekið höndum saman og ætla að standa saman að fræðslu um opinn aðgang í vikunni í ár. Fylgist með 19. -25. október.