OA á Íslandi

Opinn aðgangur að niðurstöðum rannsókna sem fjármagnaðar eru af hinu opinbera er málefni sem allir þurfa að berjast fyrir, hvaða hlutverki sem þeir gegna. Rannsakendur, kennarar, nemendur, upplýsingafræðingar og útgefendur – og síðast en ekki síst stjórnvöld; allir þurfa að taka höndum saman og leggja sitt á vogarskálarnar til að opinn aðgangur verði að veruleika.

Íslendingar hafa notið góðs af landsaðgangi að rafrænum áskriftum á hvar.is sem veldur því að þeir hafa góðan aðgang að tímaritsgreinum og niðurstöðum vísindarannsókna, oftast án þess að gera sér grein fyrir að fyrir þennan aðgang greiða um 200 íslenskar stofnanir og fyrirtæki stórfé. Ef hver og einn þyrfti að greiða sérstaklega fyrir hverja einustu tímaritgrein sem ætlunin væri að lesa og nýta sér myndi skilningur væntanlega aukast snarlega á þörfinni fyrir að allir hafi jafnan aðgang á því efni sem skattpeningar okkar hafa nú þegar greitt fyrir í formi rannsóknastyrkja til vísindamanna okkar.